Kristín Dís Árnadóttir er á heimleið í Breiðablik en þetta herma heimildir Fótbolta.net. Hún er sem stendur án félags og kemur til Breiðabliks á frjálsri sölu.
Kristín er uppalin í Breiðablik en hún hefur einnig leikið með Fylki og Augnablik á sínum ferli hérna heima. Hún á 85 deildarleiki fyrir Blika á sínum ferli og skorað í þeim 7 mörk.
Snemma árs 2022 skrifaði hún undir hjá Brøndby í Danmörku og hefur leikið þar síðan. Seinna í ágúst verður hún 25 ára en þessi hafsent spilaði 28 leiki fyrir Brøndby yfir þrjú tímabil í Danmörku.
Breiðablik er í hörku toppbaráttu við Valskonur en á dögunum mættust liðin sem endaði með 1-0 sigri Vals og því Blikaliðið komið í 2. sætið, þremur stigum á eftir Val.
Blikaliðið mætir hins vegar Valskonum á Laugardalsvelli í úrslitaleik Mjólkurbikarsins föstudaginn 16. ágúst.