Fór á kostum í átta marka sigri Vals í Garðabæ

Thea Imani Sturludóttir sækir að Garðbæingum í kvöld.
Thea Imani Sturludóttir sækir að Garðbæingum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Thea Imani Sturludóttir átti stórleik fyrir Val þegar liðið heimsótti Stjörnuna í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í TM-höllina í Garðabæ í fjórðu umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 31:23-sigri Valskvenna en Thea Imani gerði sér lítið fyrir og skoraði níu mörk í leiknum.

Garðbæingar leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 15:13, en Valskonur snéru leiknum sér í vil strax í upphafi síðari hálfleiks og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.

Mariam Eradze og Auður Ester Gestsdóttir skoruðu sex mörk hvor fyrir Val og þá átti Sara Sig Helgadóttir stórleik í marki Vals og varði 20 skot.

Eva Björk Davíðsdóttir var markahæst Garðbæinga með sjö mörk og Ásthildur Bertha og Elísabet Gunnarsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor. Darija Zecevic varði fimmtán skot í marki Stjörnunnar.

Valur er með fullt hús stiga í efsta sæti deildarinnar eða 6 stig en Stjarnan er með 2 stig í sjötta og þriðja neðsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert