Svíar í undanúrslit eftir lygilega endurkomu

Valter Chrintz fór á kostum gegn Noregi.
Valter Chrintz fór á kostum gegn Noregi. AFP

Svíþjóð er komið í undanúrslit á Evrópumóti karla í handknattleik eftir lygilega dramatík gegn Noregi í lokaleik liðanna í milliriðli II í Bratislava í kvöld.

Leiknum lauk með 24:23-sigri sænska liðsins en Valter Chrintz skoraði sigurmark leiksins úr vítakasti þegar fimmtán sekúndur voru til leiksloka.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en Norðmenn sigu  hægt og rólega fram úr eftir því sem leið á leikinn og leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 14:9.

Norðmenn voru með yfirhöndina framan af síðari hálfleik og leiddu með fjórum mörkum, 23:19, þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka.

Þá kom ótrúlegur kafli hjá sænska liðinu sem skoraði fjögur mörk í röð, ásamt því að Peter Johannesson lokaði markinu, og Svíum tókst að jafna metin í 23:23.

Svíar fengu vítakast þegar fimmtán sekúndur voru til leiksloka sem Chrintz skoraði úr af miklu öryggi.

Norðmenn tóku leikhlé og freistuðu þess að jafna metin en Sander Sagosen skaut yfir markið úr lokaskoti leiksins og Svíar fögnuðu ótrúlegum sigri.

Chrintz var markahæstur í sænska liðinu með sex mörk úr sex skotum og þá skoraði Jim Gottfridsson fjögur mörk. Þá átti Johannesson stórleik í sænska markinu, varði níu skot og var með 50% markvörslu. Harald Reinkind var markahæstur Noregs með sex mörk.

Svíar enda í öðru sæti milliriðils II og eru komnir áfram í undanúrslit en Norðmenn þurfa að gera sér það að góðu að leika um fimmta sætið á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert