755 milljónum króna varið í fjárfestingar

Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins er lögð sérstök áhersla á …
Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins er lögð sérstök áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. mbl.is/Arnþór

Mikill áhugi var á mótframlagslánum Stuðnings-Kríu en umsóknarfrestur um veitingu lána rann út um nýliðna helgi. Alls sóttu 31 fyrirtæki um lán og voru 26 umsóknir samþykktar. Alls verður 755 milljónum króna varið í fjárfestingar frá Stuðnings-Kríu í formi mótframlagslána.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

„Vegna mikils áhuga nýsköpunarfyrirtækja á að nýta sér úrræðið voru heildarumsóknir um lán hærri en  sú fjárhæð sem var til úthlutunar. Vegna þessa var nauðsynlegt að lækka hlutfallslega (pro-rata) þær lánsfjárhæðir sem hvert og eitt fyrirtæki fékk miðað við umsóknir. Skilyrði fyrir þátttöku Stuðnings-Kríu er að umsækjandi hafi tryggt sér sambærilega fjármögnun  einkafjárfesta í formi hlutafjár eða lánveitingar. Með framlagi Stuðnings-Kríu til fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja samhliða fjármögnun einkafjárfesta hefur tæplega 1,4 milljarður króna í heild verið varið til fjármögnunar þessara tilteknu nýsköpunarfyrirtækja á síðustu mánuðum,“ segir í tilkynningu. 

Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins er lögð sérstök áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Stuðnings-Kría er tímabundið stuðningsúrræði stjórnvalda til lífvænlegra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja sem vegna breyttra aðstæðna í fjármögnunarumhverfi nýsköpunar á heimsvísu í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfa tímabundna aðstoð til að komast yfir hjallann. 

Nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert