Mbappé gæti spilað gegn City

Kylian Mbappé meiddist á kálfa í leiknum gegn Manchester City …
Kylian Mbappé meiddist á kálfa í leiknum gegn Manchester City í síðustu viku. AFP

Kylian Mbappé, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins PSG, ferðaðist með liðinu til Manchester í morgun en PSG mætir Manchester City í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á morgun.

Fyrri leik liðanna lauk með 2:1-sigri City í París en Mbappé meiddist á kálfa í leiknum og missti af leik PSG og Lens í frönsku 1. deildinni í París um helgina.

Mbappé, sem er 22 ára gamall, hefur verið einn besti sóknarmaður Evrópu undanfarin ár en hann og Neymar eru eitt besta sóknarparið í heimsfótboltanum í dag.

Franski sóknarmaðurinn gæti komið við sögu í leiknum á morgun en PSG þarf á sigri að halda til þess að komast áfram í úrslit Meistaradeildarinnar.

Mbappé hefur skorað 25 mörk í 29 leikjum í frönsku 1. deildinni á tímabilinu en alls hefur hann skorað 37 mörk fyrir PSG á tímabilinu í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert