Vonast eftir undanþágum vegna vals á Brasilíumönnum

Fabinho, miðjumaður Liverpool, er á meðal þeirra Brasilíumanna sem hafa …
Fabinho, miðjumaður Liverpool, er á meðal þeirra Brasilíumanna sem hafa verið valdir í hópinn fyrir næsta landsliðsverkefni. AFP

Brasilíska knattspyrnusambandið vonast eftir því að fá undanþágur á kröfum um einangrun eftir að hafa valið átta leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni fyrir verkefni brasilíska landsliðsins í október.

Í síðasta landsleikjahléi í byrjun september neitaði enska úrvalsdeildin í samráði við félögin að hleypa leikmönnum frá nokkrum þjóðum í Suður- og Mið-Ameríku í verkefni landsliða þeirra í rauðmerktum löndum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Knattspyrnusambönd þjóðanna fjögurra kröfðust þess þá að Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, bannaði þeim að spila leiki sína með félagsliðum sínum í fimm daga eftir að landsleikjahlénu lauk, eins og reglur FIFA kveða á um sé leikmönnum meinað að taka þátt í landsliðsverkefnum.

Samböndin létu að lokum af þessum kröfum sínum en með annað landsleikjahlé handan við hornið eru vandamálin síður en svo horfin.

Sem stendur þurfa allir sem ferðast frá Bretlandi til Brasilíu að fara í 14 daga einangrun við komu og þá þurfa allir sem koma til Bretlands frá Brasilíu að fara beint í 10 daga einangrun við komuna þangað.1

Juninho, fyrrverandi leikmaður Middlesbrough, og núverandi liðstjóri hjá brasilíska landsliðsins segir brasilíska knattspyrnusambandið þó vongott um að Brasilíumennirnir átta úr ensku úrvalsdeildinni fái undanþágu og þurfi því ekki að vera þetta marga daga í einangrun.

„Við höfum átt fjölda jákvæðra funda með FIFA, ensku úrvalsdeildinni og bresku ríkisstjórninni, og við erum að reiða okkur á að það finnist jákvæð lausn í næstu viku. Þess vegna höfum við valið þessa leikmenn í hópinn hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert