Selfoss upp að hlið Fylkis – fyrsti sigur Kórdrengja

Þórsarinn Kristófer Kristjánsson í baráttu við tvo Grindvíkinga á Akureyri …
Þórsarinn Kristófer Kristjánsson í baráttu við tvo Grindvíkinga á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Selfoss fór upp að hlið toppliðs Fylkis í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, með því að gera jafntefli við Aftureldingu í kvöld. Þór frá Akureyri og Grindavík skildu einnig jöfn og Kórdrengir unnu þá sinn fyrsta sigur í sumar, gegn KV. 

Ingvi Rafn Óskarsson hafði komið Selfyssingum yfir á 73. mínútu í Mosfellsbænum og stefndi því í þriðja sigur Selfoss í jafn mörgum leikjum á tímabilinu.

Allt kom þó fyrir ekki þar sem Ýmir Halldórsson jafnaði metin stundarfjórðungi síðar og 1:1-jafntefli því niðurstaðan.

Selfoss er því með 7 stig eftir þrjá leiki í öðru sæti deildarinnar, jafnmörg og Fylkir sem er á toppnum með bestu markatöluna hingað til.

Afturelding er áfram í grennd við botninn með 2 stig.

Þór og Grindavík gerðu sömuleiðis 1:1-jafntefli.

Dagur Ingi Hammer Gunnarsson kom Grindvíkingum yfir eftir tæplega hálftíma leik.

Allt stefndi í sigur Grindavíkur en varamaðurinn Je-Wook Woo jafnaði metin fyrir Þór í uppbótartíma og tryggði heimamönnum þannig eitt stig.

Bæði lið halda kyrru fyrir um miðja deild.

Kórdrengir mættu KV í Safamýrinni og unnu sterkan 2:0-sigur þar sem Þórir Rafn Þórisson skoraði bæði mörkin.

Fyrst skoraði hann eftir um stundarfjórðungs leik en örskömmu síðar fékk KV dæmda vítaspyrnu.

Á vítapunktinn steig Ingólfur Sigurðsson en Daði Freyr Arnarsson í marki Kórdrengja varði spyrnu Ingólfs.

Í upphafi síðari hálfleiks tvöfaldaði Þórir Rafn svo forystu Kórdrengja.

Þar við sat og Kórdrengir eru nú með fjögur stig um miðja deild en KV er á botni deildarinnar án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert