Valsmenn fengu króatíska andstæðinga

Valsmenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í síðasta mánuði.
Valsmenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla mæta króatískum andstæðingum í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í haust.

Valur var í neðri styrkleikaflokki fyrir dráttinn í fyrstu umferðina og dróst gegn Porec frá Króatíu. Leikirnir fara fram á bilinu 28. ágúst til 5. september og á sá fyrri, samkvæmt drættinum, að fara fram í Króatíu.

Í Evrópudeildinni eru tvær umferðir í undankeppni áður en riðlakeppni með 24 liðum hefst í október.

Meðal liðanna sem Valsmenn hefðu getað dregist gegn voru Rhein-Neckar Löwen frá Þýskalandi, sem Ýmir Örn Gíslason leikur með, Kadetten Schaffhausen frá Sviss, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, og Alpla Hard frá Austurríki, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert