Ætla að flytja til Ítalíu eftir brottrekstur fótboltaliðs

Áhangendur fótboltaliðsins CS Chebba í Túnis brenndu dekk og lokuðu …
Áhangendur fótboltaliðsins CS Chebba í Túnis brenndu dekk og lokuðu götum í mótmælaskyni eftir að liðið var rekið úr deildinni. AFP

Hundruð íbúa bæjarins Chebba við sjávarsíðu Túnis hafa hótað að yfirgefa landið og sigla í leyfisleysi yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu eftir að fótboltaliði bæjarins var vikið tímabundið úr deildinni.

Knattspyrnusamband Túnis dæmdi fótboltalið bæjarins, CS Chebba, í eins árs bann frá deildinni og er opinber ástæða þess sögð vera ófullnægjandi umsókn sem liðið skilaði til að fá að taka þátt í deildinni, sem barst einnig of seint.

Þetta hefur þó verið dregið í efa, þar sem forseti fótboltaliðsins hefur átt í deilum við yfirmann knattspyrnusambandsins í marga mánuði, og hefur meðal annars birt opinberlega gagnrýni sína á fjármálum þess.

Eftir að ákvörðunin var birt flykktust áhangendur liðsins út á götur bæjarins í hundraðatali, og var mörgum heitt í hamsi.

Ungir stuðningsmenn CS Chebba mótmæla.
Ungir stuðningsmenn CS Chebba mótmæla. AFP

„Sem mótsvar við þögn yfirvalda hafa íbúar bæjarins ákveðið að yfirgefa landið og fara til Ítalíu,“ sagði nefndarmaður í stuðningsmannafélagi liðsins við AFP-fréttaveituna.

Komið hefur verið upp tjaldi í bænum þar sem hægt er að skrá sig í svaðilförina yfir Miðjarðarhafið og hafa rúmlega 1.300 manns gert það nú þegar. Áætlað er að 200 bátar muni flytja mannskapinn og að farið verði á fimmtudaginn.

Ólöglegum sjóferðum frá Túnis til Evrópu hefur farið fjölgandi síðan árið 2017, að mestu vegna slæms efnahags í landinu eftir byltinguna sem þar átti sér stað árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert