Mendy átti skilið tilnefningu

Édouard Mendy, markvörður Chelsea og senegalska landsliðsins.
Édouard Mendy, markvörður Chelsea og senegalska landsliðsins. AFP

Kalidou Koulibaly, varnarmaður ítalska félagsins Napoli og senegalska landsliðsins, segist ekki átta sig á því hvernig það megi vera að samherji hans hjá landsliðinu, Édouard Mendy, hafi ekki verið tilnefndur til Gullknattarins.

Mendy, sem er markvörður enska félagsins Chelsea, hefur verið sem klettur á milli stanganna hjá liðinu og átti stóran þátt í því að það vann Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili, hans fyrsta eftir að hann var keyptur fyrir rúmu ári frá franska félaginu Rennes.

30 leikmenn eru tilnefndir til Gullknattarins í ár en Mendy er ekki þeirra á meðal.

„Það er synd og skömm að Édou er ekki einn þeirra. Hann er fyrsti afríski markvörðurinn sem vinnur Meistaradeildina. Við verðum að halda áfram að vinna og leggja hart að okkur.

Við þurfum að leggja tvöfalt á okkur samanborið við sumt fólk til þess að vera metnir að verðleikum,“ sagði Koulibaly á blaðamannafundi eftir 4:1-sigur Senegals gegn Namibíu í undankeppni HM 2022 á laugardag, og átti þar við afríska leikmenn.

„Édou er mjög jákvæð manneskja. Við ræddum þetta okkar á milli. Hann mun halda áfram að berjast fyrir því að vera á meðal þessara 30 bestu. Fyrir mér á hann heima þar,“ bætti Koulibaly við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert