Filippus borinn til grafar 17. apríl

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að Windsor-kastala til að …
Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að Windsor-kastala til að votta prinsinum virðingu sína. AFP

Filippus prins, eiginmaður Elísabetar Englandsdrottningar, verður borinn til grafar á laugardaginn kemur, 17. apríl, og fer athöfnin fram í Windsor-kastala í útjaðri Lundúna. Þetta tilkynnti konungshöllin fyrir skemmstu. Filippus lést á föstudag 99 ára að aldri.

Vegna sóttvarnareglna verður athöfnin látlausari en ella, en aðeins verða 30 manns viðstaddir athöfnina, þeirra á meðal Harry prins. Meghan prinsessa verður hins vegar ekki viðstödd, að sögn að læknisráði, en hún er ólétt að öðru barni þeirra hjóna. Athöfninni verður hins vegar sjónvarpað.

Konungsfjölskyldan hefur beðið fólk að safnast ekki saman fyrir utan höllina til að votta Filippusi virðingu, en fjöldi fólks hefur látið það sem vind um eyru þjóta.

Hleypt hefur verið af fallbyssum víða um Bretland í dag til minningar um prinsinn, í Lundúnum, Edinborg, Cardiff og í County Down á Norður-Írlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert