„Markmiðið var að vinna og við gerðum það með stæl“

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir í leik með Stjörnunni sumarið 2020.
Aníta Ýr Þorvaldsdóttir í leik með Stjörnunni sumarið 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir er nafn sem gæti dúkkað oftar upp á næstu árum þegar kemur að umfjöllun um Bestu-deildina í fótbolta. Stúlkan fór á kostum í dag þegar Stjarnan vann Þór/KA 4:0 í Boganum á Akureyri.

Aníta Ýr, sem fæddist árið 2003, var að spila fimmta leik sinn í deildinni í sumar eftir mikið meiðslatímabil en hún spilaði aðeins einn leik í fyrra. 

Það þótti við hæfi að fá Anítu Ýri í viðtal eftir leik en hún var ekki beint að kjafta frá sér allt vit. 

Þetta var flottur leikur hjá þér í dag, stoðsending, mark og ýmislegt fleira sem gladdi augað. Hefur þetta alltaf verið svona hjá þér í sumar? 

„Nei, ég er bara nýkomin aftur eftir meiðsli. Ég var frá allt tímabilið í fyrra og svo í byrjun þessa tímabils  og þetta er bara fimmti leikurinn minn í deildinni. Það er bara gaman að vera komin aftur til leiks. Ég ætla að koma sterk inn í næsta tímabil þar sem þetta er því miður að klárast.“ 

Nú sýndist mér að þú værir örvfætt á hægri vængnum. Passar það? 

„Nei, ég er réttfætt,“ svaraði Aníta Ýr en það var ekki að sjá enda fór hún á báða fætur og hikaði ekki við að rekja boltann með þeim vinstri. Hún lék sér stundum að leikmönnum Þórs/KA og var boltinn sem límdur við hana. „Svona er þetta bara, maður er búinn að æfa sig og æfingin skilar alltaf sínu,“ sagði Aníta Ýr hógvær. 

Það var mikið undir hjá ykkur í þessum leik og maður gat séð að þið voruð rétt innstilltar. 

„Markmiðið var að vinna og við gerðum það bara með stæl.“ 

Annað sætið er ykkar og þið eruð í kjörstöðu fyrir lokaumferðina. 

„Við erum bara ákveðnar í að halda þessu öðru sæti og við munum gera það,“ sagði þessi skemmtilegi leikmaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka