Finnur vonandi réttu formúluna

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, á Hlíðavelli fyrr í sumar.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, á Hlíðavelli fyrr í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, segir annars konar stemningu ríkja í kringum Íslandsmótið en önnur mót og auðvelt sé að koma sér í gírinn fyrir mótið. 

Íslandsmótið hófst í morgun á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar en Ólafía á rástíma klukkan 15:50 í dag. 

„Spilamennskan er góð um þessar mundir. Ég er búin að undirbúa mig vel og spila nokkra æfingahringi. Er búin að setja saman leikáætlun varðandi það hvernig ég vil spila völlinn,“ sagði Ólafía Þórunn sem verið hefur hér heima á árinu vegna kórónuveirunnar. Fyrir vikið fær hún tækifæri til að spila á Íslandsmótinu í fyrsta skipti síðan 2016. 

„Í raun hef ég ekkert verið á íslensku mótaröðinni síðan 2016 þar til í ár og í sumar hef ég tekið þátt í öllu. Stemningin er alltaf meiri í kringum Íslandsmótið. Fyrir mig er léttara að peppa mig upp fyrir Íslandsmótið en önnur mót á mótaröðinni.“

Ólafía hefur þrívegis sigrað á Íslandsmótinu og veit hvað til þarf. „Já ég hef nokkrum sinnum dottið niður á réttu formúluna. Vonandi finn ég hana í ár,“ sagði Ólafía þegar mbl.is ræddi við hana í Mosfellsbænum í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert