Vinnum með þremur og skorum 29 mörk

Dagur Arnarsson með boltann í kvöld.
Dagur Arnarsson með boltann í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, var ekki nógu sáttur með leik sinna manna gegn Val í kvöld en liðið tapaði með þriggja marka mun 25:28. Hann horfir þó bjartsýnum augum á seinni leikinn.

„Ég er ekki alveg klár á því, við erum of passívir í byrjum seinni hálfleiks sem skapar þennan mun, það er eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Kristinn en ÍBV leiðir leikinn rétt fyrir hálfleik en rúmum 15 leikmínútum seinna leiða Valsmenn með 6 mörkum.

„Við brjótum okkur út úr okkar systemi sóknarlega og erum að hleypa þeim of auðveldlega á okkur. Það er hlutur sem við þjálfarar og leikmenn þurfum að skoða fyrir föstudaginn og laga.“

Eyjamenn náðu að minnka forskot Valsmanna niður í tvö mörk nokkrum sinnum en enda þó á því að tapa með þremur, er það of stórt tap?

Stuðningsmenn ÍBV létu vel í sér heyra í kvöld.
Stuðningsmenn ÍBV létu vel í sér heyra í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við ætluðum alls ekki að fá á okkur mark af einhverjum 15 metrum en svona er lífið. Við bætum upp fyrir það, við höfum séð fullt af svörtum hlutum og það að vera þremur mörkum yfir þegar 60 mínútur eru eftir af viðureigninni er ekki neitt. Við ætlum að bæta frammistöðuna, þurfum að vera betri í að koma okkur til baka á völlinn og standa vörn, síðan þurfum við að finna fleiri lausnir sóknarlega.“

Það hlýtur að vera fúlt fyrir Eyjamenn að spila annan leikinn í úrslitakeppninni fyrir framan magnaða stuðningsmenn og vera ekki enn búnir að ná í sigur. „Það er hundleiðinlegt, aðalatriðið er samt sem áður hvernig þetta endar og nú er það okkar að vinna með það,“ sagði Kristinn en hann heldur að fullt af fólki mæti á föstudaginn. „Ég efast ekki um það, það verður troðfullt af Eyjafólki, stuð og stemning.“

Hvernig fer seinni leikurinn?

„Við vinnum með þremur og skorum 29 mörk á útivelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert