Sumir sem hlógu að mér

Gunnar Magnússon
Gunnar Magnússon mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er bara ótrúlega glaður, hvað get ég sagt. Bara frábær frammistaða,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, eftir 36:24 sigur á Þór frá Akureyri í 12. umferð Olísdeildar karla nú í kvöld. „Þetta var mikilvægur leikur fyrir okkur. Við erum búnir að vera í smá basli undanfarið og ekki náð góðri frammistöðu en við svöruðum þessu í dag.

Gaman að sjá frammistöðuna í báðum hálfleikjum. Við erum kannski klaufar að fara ekki með meiri forystu inn í hálfleik, en heilt yfir frábært.“

Guðmundur Bragi Ástþórsson, lánsmaður frá Haukum, sem hefur vakið mikla athygli með Aftureldingu í vetur átti enn einn góða leikinn, þar sem hann átti meðal annars 11 stoðsendingar. Aðspurður um hans leik sagði Gunnar:

„Við munum sakna hans. Hann fer núna yfir í Haukana. Þeir eru í meiðslum þannig að hann er að fara. En auðvitað bara hrikalega ánægður með að hafa fengið hann í þennan mánuð. Bara gott fyrir hann og okkur. Hann hefur hjálpað okkur á erfiðum tímum og hann hefur líka sprungið út og sýnt hvað hann getur.“

Mikið hefur verið talað um álag á liðin í deildinni eftir langt hlé vegna Covid-19. Aðspurður um þessi mál sagði Gunnar:

„Það var vitað að þetta yrði mikið álag. Það voru sumir sem hlógu að mér þegar ég talaði um að það ætti mögulega að spila einfalda umferð. Þetta er mikið álag og þetta er eitthvað sem formenn félaganna þurfa að ræða og stjórna. Við þjálfararnir erum bara í vinnu hjá þeim en þetta álag á bara eftir aukast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert