Körfubolti

„Yrði risastórt fyrir Tindastól að fara aftur á Krókinn með 2-1 forystu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmaðurinn Kristófer Acox reynir hér að komast framhjá Sigurði Gunnari Þorsteinssyni og varnarmönnum Tindastóls.
Valsmaðurinn Kristófer Acox reynir hér að komast framhjá Sigurði Gunnari Þorsteinssyni og varnarmönnum Tindastóls. Vísir/Bára Dröfn

Staðan er jöfn í úrslitaeinvígi Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla og liðin spila fyrir framan uppseldum Hlíðarenda í kvöld.

„Það er mikið undir hér á Hlíðarenda í kvöld þegar Valur og Tindastóll mætast í þriðju viðureign liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Það er uppselt á leikinn og hér verða fimmtán hundruð áhorfendur í húsinu annan leikinn í röð,“ sagði Guðjón Guðmundsson.

Guðjón fékk Hörð Unnsteinsson, yfirþjálfara hjá KR og sérfræðing í Körfuboltakvöldi, til að spá í þriðja leik Vals og Tindastóls í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Subway Körfuboltakvölds hefst klukkan 20.00.

„Þetta er í rauninni bara ótrúlegt og ég man ekki eftir að það hafi gerst oft áður að það sé uppselt á úrslitaleiki í körfubolta langt fram í tímann. Þetta er mögnuð stemmning sem hefur myndast hérna í þessari seríu. Við eigum eftir að sjá ótrúlegan leik í kvöld,“ sagði Hörður Unnsteinsson.

„Það er talað um það í NBA körfuboltanum ef þú vinnur leik fimm í sjö leikja seríu þá vinna 83 prósent liðanna seríuna. Ætli það sé ekki svipað í íslenskum körfubolta. Leikur þrjú í 1-1 stöðu og ef þú vinnur hann ertu kominn með ansi góða yfirhönd,“ sagði Hörður.

„Það væri sérstaklega sterkt fyrir Tindastól að fara aftur til baka á Sauðárkrók á sunnudaginn með 2-1 forystu. Það yrði risastórt,“ sagði Hörður.

„Ég held að þetta verði algjör spennuleikur. Tindastólsmenn slógu Valsmenn svolítið á trýnið í síðasta leik og stemmning á Sauðárkrók var engu lagi lík. Ég held að Valsmenn verði svolítið að svara fyrir það í dag. Þeir náðu illa að standast ákefðina í vörninni hjá Tindastól í síðasta leik og það verður að verða einhver mikil hugarfarsbreyting hjá Valsmönnum ef ekki á illa að fara í kvöld,“ sagði Hörður.

Það má heyra allt viðtal Gaupa við Hörð hér fyrir neðan.

Klippa: Hörður spáir í þriðja leik Vals og Tindastól



Fleiri fréttir

Sjá meira


×