Ég er leikmaður Brescia

Birkir Bjarnason er samningsbundinn Brescia til sumarsins 2021.
Birkir Bjarnason er samningsbundinn Brescia til sumarsins 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Brescia í ítölsku B-deildinni, hefur ekkert spilað með liðinu á þessu keppnistímabili.

Birkir gekk til liðs við Brescia í janúar á þessu ári en hann kom til félagsins á frjálsri sölu og lék þrettán leiki með liðinu í ítölsku A-deildinni, þar af níu sem byrjunarliðsmaður, en liðið féll úr efstu deild í sumar. 

„Staðan er sú að ég er leikmaður Brescia og þannig er það,“ sagði Birkir á blaðamannafundi íslenska karlalandsliðsins í höfuðstöðvum KSí í gær þegar hann var spurður út í stöðu sína hjá ítalska félaginu.

„Það var mikil óvissa um framtíð mína í sumar og þeir tók því þá ákvörðun að spila mér ekki í ljósi þess að það var mikið í gangi.

Glugganum hefur verið lokað núna og ég er leikmaður Brescia,“ bætti landsliðsmaðurinn við en Birkir verður með fyrirliðabandið í kvöld þegar Ísland tekur á móti Belgíu á Laugardalsvelli í Þjóðadeild UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert