Angjelin greiði 87 milljónir og ríkissjóður 52

Angj­el­in Sterkaj (í miðjunni) í dómsal í september síðastliðnum.
Angj­el­in Sterkaj (í miðjunni) í dómsal í september síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Angjelin Sterkaj, sem var dæmdur í 16 ára fangelsi í morgun fyrir að verða Armando Beqirai að bana, þarf að greiða samtals um 87 milljónir króna vegna málsins, að því er kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. 

Hann var í morgun dæmdur til að greiða ekkju hans, Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur, rúmar 32 milljónir króna í bætur.

Hann þarf að greiða syni Þórönnu og Beqirai um 10,4 milljónir króna í bætur og nýfæddri dóttur þeirra tæpar 11 milljónir króna.

Foreldrum Beqirai þarf hann jafnframt að greiða 3 milljónir króna, hvoru um sig, auk rúmlega 4 milljóna króna réttargæsluþóknunar skipaðs réttargæslumanns allra einkaréttarkröfuhafa.

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Angjelin þarf einnig að greiða um 4,8 milljónir króna vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins og um 18,6 milljóna króna málsvarnarlaun Oddgeirs Einarssonar lögmanns, sem var verjandi hans í málinu.

Ríkissjóður greiði rúmar 52 milljónir króna

Ríkissjóður var dæmdur til að greiða um 17,5 milljóna króna málsvarnarlaun Sverris Halldórssonar, verjanda Claudiu Sofiu Coel­ho Car­val­ho sem var sýknuð í málinu, og um 14,4 milljóna króna málsvarnarlaun Geirs Gestssonar, verjanda Murats Selivrada, sem var einnig sýknaður.

Einnig var ríkissjóður dæmdur til að greiða um 1,7 milljóna króna málvarnarlaun Ólafs Páls Vignissonar lögmanns vegna vinnu undir rannsókn málsins og um 18,4 milljóna króna málsvarnarlaun Leós Daðasonar, verjanda Shpetim Qerimi, sem var einnig sýknaður.

Skammbyssa dæmd upptæk

Óslitið gæsluvarðhald Angjelin Sterkaji frá 17. febrúar síðastliðnum var dregið frá 16 ára fangelsisdóminum.

Dæmd var upptæk skammbyssa af gerðinni Sig Sauer 1911-22.

Bótakröfum að því er varðaði þau sem voru sýknuð í málinu var vísað frá dómi.

Angj­el­in Sterkaj.
Angj­el­in Sterkaj. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ótrúverðugur framburður ákærða

Fram kemur í dómi héraðsdóms að Angjelin hafi borið fyrir sig neyðarvörn og að hann og sonur hans hafi orðið fyrir alvarlegum hótunum af hálfu Armando Beqirai. Það hafi átt að leiða til refsilækkunar eða refsibrottfalls.

„Litlar upplýsingar eru um deilur milli ákærða Angjelins og A þótt gögn beri með sér að eitthvert ósætti kunni að hafa verið á milli þeirra. Framburður ákærða Angjelins um miklar deilur og hótanir í sinn garð og að sekt hafi verið lögð á F, eins og rakið var, og ákærði hafi blandast inn í það, er að mati dómsins ótrúverðugur og ekki á rökum reistur,“ segir í dóminum.

„Það er mat dómsins að ekkert sé fram komið í málinu sem leiði til annarrar niðurstöðu en að virða háttsemi ákærða Angjelins sem beinan ásetning um að svipta A lífi. Ákærði á sér engar málsbætur,“ segir þar einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert