„Held að boltinn hafi ekki verið farinn út af“

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. Kristinn Magnússon

Sóley María Steinarsdóttir, miðvörður Þróttar úr Reykjavík, var ánægð með frammistöðu liðsins í markalausa jafnteflinu gegn Val í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Mér fannst við ótrúlega duglegar og vinnusamar, það var mjög góður liðsandi í liðinu og geggjuð barátta allan tímann. Þannig að ég er bara mjög sátt með liðið,“ sagði Sóley María í samtali við mbl.is eftir leik.

Þrátt fyrir að vera sátt við stigið sagðist hún gjarna vilja hafa tekið öll þrjú.

„Já. Ég held að boltinn hafi ekki verið farinn út af í þessu marki sem hann dæmdi af. Mér fannst við alveg geta það og eiga það skilið. En svona er þetta. Bæði lið mjög góð, þetta var hörkuleikur,“ sagði hún og vísaði til þess þegar Shaelan Murison setti boltann í netið á 12. mínútu með því að vippa yfir Söndru Sigurðardóttur en aðstoðardómarinn flaggaði að boltinn hafi verið farinn aftur fyrir hliðarlínu áður en hún skoraði.

Sóley María sagði helsta muninn á frammistöðunni í kvöld og í fyrsta leik gegn Tindastóli, þar sem Þróttur jafnaði metin í blálokin í 1:1 jafntefli, hafa snúið að vinnslunni út um allan völl. „Það var aðeins meiri barátta og grimmd fram á við fannst mér, þegar við vorum að sækja.

Við byggjum ofan á þessu og ef við höldum svona áfram þá lofar það bara góðu. Það er bara einn leikur í einu og við einbeitum okkur að næsta leik núna,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert