FIFA vísar kæru Frakkanna frá

Antoine Griezmann fagnaði markinu ásamt félögum sínum.
Antoine Griezmann fagnaði markinu ásamt félögum sínum. AFP/Franck Fife

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur vísað frá kæru frá franska knattspyrnusambandinu vegna marksins sem dæmt var af Frökkum í lok leiks þeirra við Túnis í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Katar.

Antoine Griezmann virtist hafa jafnað metin í 1:1 á lokasekúndum uppbótartímans. Leikurinn var flautaður af en síðan var markið úrskurðað ólöglegt vegna rangstöðu.

Frakkar sættu sig ekki við að hægt væri að dæma markið af þegar leiknum var lokið og sendu inn kæru. FIFA sendi frá sér tilkynningu í dag um að henni hefði verið vísað frá.

Markið hefði engu breytt, Frakkar unnu D-riðilinn eftir sem áður og sigurinn dugði ekki Túnis til að komast í 16-liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert