Allflestar ríkisstofnanir nýttu sér heimild til styttingu vinnuvikunnar úr 40 stundum í 36 vinnustundir, sem innleiddar voru í kjarasamningum 2019-2020, að fullu í fyrsta skrafi þrátt fyrir fyrirmæli um að fara hægt í sakirnar, að því er kemur fram í nýrri skýrslu KPMG um vinnubreytingar ríkisins.

„Þrátt fyrir að stjórnendum ríkisstofnana hafi verið ráðlagt að fara hægt í sakirnar og innleiða styttingu vinnuvikunnar í skrefum samhliða vinnu við umbætur á rekstri og þjónustu innleiddu 77% stofnana hámarks vinnutímastyttingu í fyrsta skrefi,“ segir í skýrslunni.

Meirihluti stofnana er sagður hafa farið strax í hámarksstyttingu vinnutímans án þess að fylgt væri markmiðum um gagnkvæman ávinning, skilvirkni og gæði þjónustu. „Í ríkiskerfinu skorti árangurs- og framleiðnimælingar,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Í skýrslunni segir að áhrif á vinnutímabreytinga ríkisins á skilvirkni í rekstri stofnana sé „heilt yfir óljós“. Hins vegar séu vísbendingar um að gæði þjónustu hafi minnkað.

Ráðuneytin hafi misst af tækifærum

Fram kemur að í samkomulagi um útfærslu vinnutíma með kjarasamningum var ábyrgð og forystuhlutverk á innleiðingu og eftirfylgni með verkefninu ekki skilgreint í upphafi. Betra hefði verið að árétta og setja fram með skýrari hætti hverjir lykil verkþættir í allri framkvæmd og hlutverk hvers aðila þegar verkefninu var ýtt úr vör.

„Í undirbúningi misstu ráðuneytin af tækifæri til að knýja fram umbætur og árangur. Þau litu á verkefnið Betri vinnutíma sem „bottom up“ hugmyndafræði þar sem stofnanirnar bæru sjálfar ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni. Fæstar stofnanir náðu að knýja fram umbætur samhliða breytingum á vinnutíma áður en verkefnið kom til framkvæmda.“

Þá er það mat KPMG að stofnanir séu margar hverjar hvorki af þeirri stærð, né hafi mannauð og skipulag til að takast á við jafn viðamiklar breytingar og verkefnið betri vinnutími gerir kröfur um. Þá hafi knappur undirbúningstími, sem skýrðist einkum af Covid-faraldrinum, ekki hjálpað til.

„Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun nýta niðurstöður stöðmatsins við næstu kjarasamningsgerð ásamt því að leggja áfram á það áherslu að styrkja stofnanakerfið og gera það burðugra til þess að sinna sínum kjarnaverkefnum.“

Í skýrslu KPMG segir að til skamms tíma litið hafi vinnutímabreytingar ríkisins ekki leitt til hækkunar á launakostnaði. Hvergi sjást vísbendingar um að launakostnaður eða yfirvinna sé að hækka með styttingu vinnuvikunnar.