Málþing um áhrif barna

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/​Hari

Í tilefni af degi mannréttinda barna í dag mun umboðsmaður barna standa fyrir málþingi um þátttöku og áhrif barna í samfélaginu. Málþingið ber heitið „Áhrif barna: Tækifæri, leiðir og framkvæmd“, og hefst klukkan 12:00.

Streymt verður frá þremur erindum auk þess sem innlegg frá ungmennum úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna verður aðgengileg á síðu viðburðarins og síðu embættisins á Facebook.

Viðburðinn má finna hér.

Auk þess opnuðu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra nýjan fræðsluvef um Barnasáttmálann í dag á www.barnasattmali.is.

Dagskrá málþingsins:

Eiður Welding og Anna Ingibjargardóttir, ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna stýra streyminu. 

Marta Magnúsdóttir: Vinnuskóli - Væri ekki bara best að spyrja ungmennin?

Vinnuskólar sveitarfélaga eru í flestum tilvikum fyrsta reynsla barna af vinnumarkaði og því nauðsynlegt að þessi fyrsta reynsla sé jákvæð og uppbyggjandi. Marta kynnir hér afrakstur vinnu við handbók fyrir vinnuskóla sem unnin var í sumar. Í handbókinni eru dæmi um einföld og notendavæn verkfæri sem flokkstjórar og skólastjórar vinnuskóla geta notað meðal annars til að veita ungmennum vinnuskólans tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri til að þróa og bæta starfið.

Guðjón Þór Jósefsson: Þátttaka barna í stefnumótun og ákvarðanatöku: Ágrip af reynslu annarra ríkja.

Erindið fjallar um ýmsar aðgerðir sem önnur ríki, einkum í Evrópu, hafa gripið til í því skyni að tryggja börnum rétt til þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku í málum sem þau varða. Þar að auki verður gerð grein fyrir þeim leiðum og aðferðum sem ríki hafa valið við að tryggja þátttöku barna. Loks verður tæpt á þeim skilyrðum sem þátttaka barna þarf að uppfylla til að teljast áhrifarík og uppbyggileg með hliðsjón af reynslu annarra ríkja.

Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir: "Ekkert um okkur án okkar": Samráð við börn í íslenskri stjórnsýslu. Greining útfrá þátttökulíkani Laura Lundy.

Vigdís kynnir meistararitgerð sína sem fjallar um samráð við börn í íslenskri stjórnsýslu. Horft er til reynslu barna sem tekið hafa þátt í samráði á vegum stjórnsýslunnar og rýnt í skipulag, virkni og áhrif ungmennaráða á Íslandi. Framkvæmd var rýnihóparannsókn um samráð barna við stjórnvöld og spurningakönnun varðandi stöðu ungmennaráða var send á öll sveitarfélög landsins. Líkan fræðikonunnar Laura Lundy (2007) var leiðarljós í greiningu ritgerðarinnar en Lundy er einn helsti sérfræðingur heims í samfélagslegri þátttöku barna.

Þá flytja erindi þau Ölöf Vala og Ísak Hugi Einarsson, ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns, en það verður aðgengilegt á síðu viðburðarins og facebook síðu embættisins á föstudaginn. Í erindi sínu fjalla þau meðal annars um upplifun ungs fólks af Covid-19 og áhrifin sem þau takmörk sem sett hafa verið í samfélaginu hafa haft á þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka