Lentu á ís á suðurskautinu

Þota Icelandair á suðurskautinu árið 2015, þegar farið var í …
Þota Icelandair á suðurskautinu árið 2015, þegar farið var í svipað verkefni. Ljósmynd/Aðsend

Boeing 767-vél Icelanda­ir er nýlögð af stað frá Suðurskautslandinu þangað sem henni var flogið til að sækja starfsfólk rannsóknarseturs og fljúga því til síns heima í Noregi.

Flugvélin lenti á suðurskautinu í hádeginu og stoppaði stutt þar, eða í rétt um tvær klukkustundir. Þaðan er henni flogið til Höfðaborgar í Suður-Afríku áður en haldið er í einum rykk til Óslóar.

Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair, er ekki með í för en hefur undirbúið ferðalagið og fylgist vel með gangi mála. Ferðalagið sjálft hófst hér á landi á miðvikudag.

„Þau lentu þarna á ís en flugbrautin er gerð á ís,“ segir Linda þegar hún er spurð hvort flugvöllurinn á norsku rannsóknarstöðinni Troll á suðurskautinu sé svipaður því sem við eigum að venjast hér á landi.

Linda segir að það erfiðasta við lendingu sé snjóblinda en aðstæður í dag voru góðar til lendingar og brottfarar. 

Eins og áður segir er vélin full af norskum vísindamönnum á leið til Höfðaborgar, þaðan sem 13 tíma flug beint til Óslóar tekur við.

„Þá fara norsku vísindamennirnir frá borði og heim eftir 14 mánuði að heiman. Í framhaldinu tekur við hvíld hjá áhöfn áður en haldið er heim til Íslands,“ segir Linda en undirbúningur vegna verkefnisins hefur staðið yfir síðan í október.

„Covid gerir þetta flóknara,“ segir Linda og bendir á að ekkert smit sé á suðurskautinu og því mikið lagt upp úr sóttvörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert