„I need ambulance bara right away!“

Húsið við Lillebergveien í Mehamn þar sem Gísli Þór Þórarinsson …
Húsið við Lillebergveien í Mehamn þar sem Gísli Þór Þórarinsson heitinn var til heimilis. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég veit það ekki,“ heyrist X, sem hefur stöðu vitnis í Mehamn-málinu, segja á ensku í upptöku af símtali við lögregluna sem viðstaddir fengu að hlýða á við aðalmeðferð Mehamn-málsins í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í dag.

Upptakan er af símtali frá því um klukkan 05:20 sem X átti að áeggjan Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, sem ákærður er fyrir að skjóta haglaskoti í læri Gísla Þórs Þórarinssonar hálfbróður síns að morgni laugardagsins 27. apríl í fyrra. Spurning lögreglunnar sneri að því hve margir væru staddir á vettvangi.

Auðheyrt var að X var töluvert niðri fyrir í símtalinu og margspurði lögregluþjónninn á hinum endanum um heimilisfangið sem X margsvaraði í fátinu að væri „Lilleveien“ í stað Lillebergveien sem var hið rétta. Spurði lögregla þá um hvaða bæ hann væri að tala, „Hvar er þetta, í Hammerfest eða...?“ spurði lögreglan og fann fljótlega út rétt heiti götunnar upp úr því að X sagði að um Mehamn væri að ræða.

„Hver hefur orðið fyrir skoti?“

Sagði X að vinur hans hefði verið skotinn og spurði lögregla hvers vegna hann héldi það. „Ég hef það bara á tilfinningunni,“ svaraði X (I just have the feeling).

„I need ambulance bara right away!“ hrópaði X í símann.

„Hver hefur orðið fyrir skoti?“ spurði lögreglan. „Gísli Þór Þórarinsson,“ svaraði X og spurði lögreglan þá hvaða líkamshluta skotið hefði hæft. „Í fótinn eða eitthvað, ég veit það ekki.“

„Er hann með meðvitund?“ spurði lögreglan og gat X ekki svarað því enda var hann ekki á staðnum heldur á heimili Gunnars Jóhanns skammt frá þaðan sem hann hringdi.

„Ég veit það ekki, ég heyrði bara að einhver hefði verið skotinn þarna,“ svaraði X þegar lögreglan spurði hvers konar skotvopni hefði verið beitt.

„Er vinur þinn fyrir utan húsið eða inni í því?“ spurði lögregluþjónninn en svarið við þeirri spurningu heyrist ógreinilega.

Komu 40 mínútum síðar

Fljótlega upp úr þessu rofnaði símasambandið og lögreglan hringdi til baka í þann farsíma sem hringt var úr. Eftir að lögregla komst að því hvert heimilisfangið var sendi hún vopnaða lögreglumenn á staðinn en þeir komu ekki á vettvang fyrr en um 40 mínútum eftir að tilkynnt var um atburðinn og hafði Gísla Þór þá blætt til ólífis. Sjúkraflutningamenn biðu þó skammt frá heimili Gísla en höfðu ekki heimild til að fara inn fyrr en lögregla var komin á vettvang og búin að tryggja hann þar sem grunur lék á að vopnaður maður væri á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert