Andersson snýr aftur

Andersson hafði áður verið fjármálaráðherra Svíþjóðar.
Andersson hafði áður verið fjármálaráðherra Svíþjóðar. AFP

Magdalena Andersson, sem er fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur aftur tekið við embættinu eftir að hún baðst lausnar í síðustu viku aðeins örfáum klukkustundum eftir kjörið. 

Gengið var til atkvæðagreiðslu aftur í dag og Andersson, sem er 54 ára gömul og formaður jafnaðarmannaflokksins, hlaut nauman stuðning. 

Hún mun reyna að leiða eins flokks ríkisstjórn fram að næstu þingkosningum sem fara fram í september á næsta ári.  

Hún lét af embætti í síðustu viku eftir að græningjar slitu stjórnarsamstarfinu í tengslum við fjárlagafrumvarpið, en flokkurinn gat m.a. ekki sætt sig við að Svíþjóðardemókratarnir, sem eru lengst til hægri á pólitíska ásnum, hefðu komið að fjárlagagerðinni. Það var, eins og fyrr segir, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að hún sjálf hafði verið kjörin forsætisráðherra. Hefð er fyrir því í Svíþjóð að forsætisráðherra biðjist lausnar komi til þess að stjórnarflokkur slíti samstarfi. 

Í atkvæðagreiðslunni í dag studdi 101 þingmaður Andersson á meðan 75 þingmenn sátu hjá og 173 sögðu nei. En samkvæmt sænskum reglum nægir frambjóðanda aðeins að komast hjá því að meirihluti greiði atkvæði gegn honum en alls eiga 349 menn sæti á sænska þinginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert