Laxeldi kynnt fyrir forsetahjónunum

Forsetahjónin voru kynnt fyrir starfsemi Laxar fiskeldi & Landeldi.
Forsetahjónin voru kynnt fyrir starfsemi Laxar fiskeldi & Landeldi. Kristinn Magnússon

„Hér kynntum við okkur fiskeldi, bæði landeldi og fiskeldi í sjó,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti, við blaðamann mbl.is í opinberri heimsókn sinni í sveitarfélaginu Ölfus í dag. Þá var Eliza Reid, forsetafrú, einnig viðstödd heimsóknina og var um að ræða þétta dagskrá.

Laxar fiskeldi og Landeldi stóðu fyrir kynningunni og tók þar framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Jens Garðar Helgason, á móti forsetahjónunum. Ásamt þeim Ingólfi Snorrasyni og Halldóri Ólafi Halldórssyni frá Landeldi. Þá var einnig starfsfólk beggja fyrirtækja á staðnum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hér er auðvitað mikið landflæmi en það er sjór á aðra hönd og undirlendi á hina og gott aðgengi að vatni. Góðar forsendur til þess að sinna þessum þætti á umhverfisvænan og vistvænan hátt eins og forráðamenn fyrirtækja hér og forystusveit sveitarfélagsins lagði mikla áherslu á og við hlýddum á,“ sagði hann. „Áhersla á að gjörnýta allt sem til fellur verður að vera leiðarljós til þess að atvinnuvegurinn sé vistvænn, það er frumforsenda sem verður að fylgja.“

Þá sagði forsetafrúin að það hafi verið gaman að fá að skoða laxeldið og sjá í kerunum fisk í þúsundatali. „Hann Ingólfur sagði við mig að það þarf að muna að fiskarnir eru einstaklingar líka og mér finnst það falleg hugsun,“ sagði hún.

Forsetahjónin stóðu yfir kerunum þar sem fiskar eru í þúsundatali.
Forsetahjónin stóðu yfir kerunum þar sem fiskar eru í þúsundatali. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laxeldið sýnir hvað íslenskt hugvit getur gert

„Við byrjuðum daginn á því að fara í Herdísarvík sem er dálítið upptakturinn á því sem við erum að gera núna en þar bjó sá íslendingur sem hefur sennilega haft háleitustu hugmyndirnar um framtíðina, Einar Benediktsson, skáld. Þaðan fórum við yfir í laxeldið sem sýnir fram á hvað íslenskt hugvit getur gert þegar margir leggjast á við eitt við það að nota okkar náttúruauðlindir.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert