Sérhæfða yfirtökufélagið Aurora, sem Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, leiðir, hefur boðað til hluthafafundar til að óska eftir heimild frá hluthöfum um aukinn frest til að ljúka samruna við bandaríska fjártæknifyrirtækið Better.

Aurora og Better tilkynntu um fyrirhugaða samrunann, sem fæli í sér skráningu Better á markað, í maí 2021 og var Better þá metið á 6,9 milljarða dala. Síðan þá hafa rekstrarhorfur Better versnað töluvert samhliða vaxtahækkunum og félagið réðst í fjórar uppsagnarhrinur á einu ári, þar á meðal hina frægu Zoom-hópuppsögn.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um komust Aurora og Better að samkomulagi síðasta sumar um breytta fjármögnun og framlengingu á frest til að ljúka samrunanum til 8. mars næstkomandi. Félögin sögðust einnig vera með til skoðunar að falla frá samrunanum þannig að Better yrði áfram óskráð félag.

Aurora sækist nú eftir að framlengja frestinn, í þriðja sinn, til 30. september 2023 þar sem stjórn sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC), sem Björólfur Thor fer fyrir, telur sig þurfa meiri tíma til að ljúka samrunanum. Verði tillagan ekki samþykkt mun Aurora leggja upp laupana.