Innlent

Fóru um borð í flug­vélina án leyfis og fengu lög­reglu­fylgd út

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu um borð í vélinni.
Frá aðgerðum lögreglu um borð í vélinni. Aðsent

Lögreglan á Suðurnesjum fór í kvöld um borð í flugvél ungverska flugfélagsins Wizz Air á Keflavíkurflugvelli og fjarlægði þrjá menn úr vélinni. Mennirnir höfðu farið í vélina þrátt fyrir að hafa verið meinaður aðgangur um borð af áhöfn hennar.

Þetta staðfestir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar, í samtali við Vísi.

„Þeim sem voru að hleypa um borð í vélina leist ekkert á þá vegna framkomu, þannig að niðurstaðan var að hleypa þeim ekki um borð. Þá fóru þeir engu að síður um borð, en voru þá bara sóttir um borð af lögreglu og fylgt út,“ segir Sigurgeir. Hér að neðan má sjá stutt myndband úr vélinni sem sýnir þegar einum mannanna er fylgt út.

Hann segir enga eftirmála hafa orðið vegna þessa, og flugfélagið hafi ekki ákveðið að kæra mennina.

„Þetta voru bara menn með uppsteyt áður en þeir fóru í vélina og áhöfnin vildi ekki fá þá um borð. Þeir voru þá bara sóttir og fylgt út. Það voru engin handalögmál.“

Vélin er nú farin í loftið til pólsku borgarinnar Katowice. Samkvæmt upplýsingum á vef Isavia átti upphaflegur brottfarartími að vera klukkan 18:50 í kvöld, en vélin fór í loftið klukkan 19:27. Ætla má að seinkunin tengist athæfi mannanna og lögregluaðgerðinni sem fylgdi í kjölfarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×