Þeir hlusta miklu meira á mig núna

Arnar Gunnlaugsson var kátur í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson var kátur í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var afar sáttur með sína menn eftir sigur Vikings á liði HK 3:0 í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld og sagði í viðtali við blaðamann mbl.is að orðið til að lýsa þessum leik væri fagmennska.

„Þetta var mjög fagmannlega gert hjá okkur í kvöld. Það var smá stress í fyrri hálfleik og fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en annað markið okkar kom á mjög góðum tíma. Reyndar koma öll mörk á góðum tíma en það var mjög gott að fá annað markið og það róaði alla niður. HK-liðið er með góða einstaklinga og áttu hættuleg break en við stjórnuðum leiknum ágætlega en HK voru mjög kraftmiklir í upphafi seinni hálfleiks og við alveg á tánum. Annað markið okkar kom eiginlega þvert gegn gangi leiksins fannst mér eftir það mark var þetta okkar leikur. HK-menn opnuðu sig eftir það og það hentar okkur ágætlega.“

En þið byrjuðu frekar rólega og þrátt fyrir að þurfa að vinna leikinn þá voru þínir leikmenn rólegir og voru ekkert að flýta sér of mikið. Eða hvað?

„Já, það er rétt. Ég hefði reyndar viljað sjá okkur sprengja aðeins meira í fyrri hálfleik. Reyna að senda fleiri bolta inn fyrir og láta leikmenn HK bakka og láta þá hugsa aðeins en við stjórnuðum þessum leik ágætlega. Þetta var bara frábær sigur í alla staði. Þetta eru spennandi leikir, þú þarft að stjórna svo mörgu núna. Þú þarft að stjórna leiknum, stjórna tilfinningum líka og Víkingar hafa ekki oft verið í þessari stöðu þannig að mér fannst við miðað við allt og ekkert að þetta hafi verið fagmannleg frammistaða. Þetta var enginn flugeldasýning fyrr en við vorum komnir í 3-0 og þá gátu menn farið að leika sér aðeins og fram að því var fagmennska algjörlega orðið sem lýsti leik okkar. Við vorum ekki að gefa nein færi á okkur, vera þolinmóðir, ekki vera að stressa sig á því þó að markið komi ekki á fyrstu mínútu. Bara að halda leikplaninu og mér finnst strákarnir hafa verið miklu þroskaðri í því núna en í fyrra til dæmis. Þeir hlusta miklu meira á mig núna.“

Þú sagðir það í vikunni að þið þyrftuð að vinna alla ykkar leiki til að eiga möguleika á Íslandsmeistaratitlinum. Þið eruð allavega komnir nær því eftir þennan sigur. Hvernig lýst þér á framhaldið?

„Þetta er auðvitað búinn að vera fullkominn dagur, so far, í fótboltanum. Ronaldo skoraði mark fyrir liðið mitt, Manchester United, í enska boltanum og við búnir að vinna HK og vonandi heldur veislan áfram í kvöld. Ég bíð spenntur,“ sagði Arnar að lokum og brosti breitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert