Ákærður fyrir sex fíkniefnabrot og tvö brot á útlendingalögum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Maður var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag fyrir sex mismunandi brot á fíkniefnalögum og tvö brot á útlendingalögum. Maðurinn játaði fíkniefnalagabrotin að hluta en neitaði sök þegar kom að útlendingalagabrotunum.

Fíkniefnabrotin sem maðurinn var ákærður fyrir vörðuðu ýmist vörslu maríjúana, kókaíns, MDMA, og amfetamíns, sem ætlað var til söludreifingar í ágóðaskyni. Útlendingalagabrotin sneru að brotum á tilkynningarskyldu og því að hafa dvalið hér á landi án dvalarleyfis.

Sex sinnum gripinn með fíkniefni

Lögreglan hafði afskipti af manninum sex sinnum á árunum 2021-2023 vegna gruns um fíkniefnalagabrot. 

Fyrsta brotið átti sér stað árið 2021. Þá hafði lögreglu borist upplýsingar um að í herbergi á gistiheimili færi fram sala og dreifing fíkniefna. Að sögn lögreglu var sterk kannabislykt í herberginu þegar hún kom á staðinn.

Maðurinn heimilaði leit í herberginu og fundust þar fíkniefni, níu farsímar og 200 þúsund krónur í reiðufé sem lagt var hald á. Greindi maðurinn þá frá því að hann hefði verið orðinn peningalaus eftir dvöl hér á landi um nokkurn tíma og hann hefði því gripið til þess ráðs að selja fíkniefni.

Þá hafði lögreglan afskipti af manninum fimm sinnum til viðbótar ýmist vegna ábendinga um sölu og dreifingu fíkniefna í húsnæði sem maðurinn bjó í, vegna grunsamlegra mannaferða  og vegna kannabislyktar. Í öll skiptin var maðurinn með eitthvað magn af fíkniefnum á sér og reiðufé í flestum tilfellum, samtals tæplega hálfa milljón.

Atvinnulaus að efla sér tekna 

Við skýrslutöku kannaðist hann við að hafa auglýst efnin til sölu á samskiptaforritinu Telegram. Fyrir dómi kvaðst hann þó ekki kannast við Telegram-forrit í símanum.

Skilaboð sem fundust í farsímunum 14 gáfu þó til kynna að maðurinn væri að selja fíkniefnin og við athugun á Telegram-samskiptaforritinu reyndust vera auglýsingar um sölu fíkniefna þar sem símanúmer ákærða voru gefin upp. 

Kvaðst hann fyrir dómi hafa verið atvinnulaus á þeim tíma sem fyrsta brotið átti sér stað og verið að afla sér tekna með fíkniefnasölu. Aðstæður hans hefðu verið erfiðar þar sem honum hefði ekki verið unnt að fara frá landinu vegna Covid-ferðatakmarkana.

Hvað varðaði haldlagða peninga greindi ákærði frá því að lítill hluti þeirra peninga, eða um 20%, væri ágóði fíkniefnasölu. Að öðru leyti skýrðist uppruninn af svartri vinnu hér á landi.

Dvaldi í heimildarleysi hér á landi

Maðurinn var ákærður fyrir tvö brot á útlendingalögum. Það fyrra fólst í að hafa ítrekað brotið gegn þeirri skyldu sinni að tilkynna sig á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Seinna brotið snéri að því að hann hafi á árunum 2020-2023 dvalið í heimildarleysi hér á landi án dvalarleyfis og farið huldu höfði í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar árið 2021, þar sem manninum var tilkynnt um brottvísun og endurkomubann fyrir ólögmæta dvöl hér á landi.

Fyrir dómi sagðist hann hafa komið til landsins sem ferðamaður og hafa ílengst hér á landi. Á þessu hefði hins vegar orðið röskun vegna almennra ferðatakmarkana sem voru í gildi út af Covid-heimsfaraldri.

Hann kvaðst að nokkru marki kannast við að hafa verið látinn sæta tilkynningarskyldu gagnvart lögreglu á árinu 2021 og 2022. Hann hefði í fyrstu sinnt þeirri skyldu en ekki skilið eða fengið nægjanlegar leiðbeiningar um hvernig eða hversu lengi hann ætti að tilkynna sig.

Sakfelldur fyrir öll brotin

Tólf lögreglumenn báru vitni í málinu. Auk upptöku á fíkniefnunum krafðist ákæruvaldið upptöku á 14 farsímum, grammavog og tæplega hálfri milljón króna í reiðufé sem maðurinn var með í vörslu sinni.

Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir alla ákæruliði sem vörðuðu brot á fíkniefnalögum. Hann var sömuleiðis sakfelldur fyrir brot á útlendingalögum.

Maðurinn var dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði, þar af fimm mánuðir skilorðsbundnir. Þá ber að draga frá þá daga í gæsluvarðhaldi sem hann sætti frá óskilorðsbundna mánuðinum.

Þá var manninum gert að greiða samtals 1.450.000 krónur í sakarkostnað til ríkissjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert