Handbolti

Ásdís líka farin til Skara

Sindri Sverrisson skrifar
Ásdís Guðmundsdóttir er orðin leikmaður Skara í Svíþjóð.
Ásdís Guðmundsdóttir er orðin leikmaður Skara í Svíþjóð. Skara HF/Annika Andersson

Leikmönnum sem farið hafa frá KA/Þór út í atvinnumennsku í sumar heldur áfram að fjölga því Ásdís Guðmundsdóttir var í dag kynnt sem nýjasti leikmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Skara.

Ásdís, sem er 24 ára línumaður, hittir fyrir hjá Skara liðsfélaga sinn úr KA/Þór því fyrr í sumar skrifaði Aldís Ásta Heimsdóttir undir samning til tveggja ára við félagið. Samningur Ásdísar er einnig til tveggja ára.

Auk þess fór hornamaðurinn ungi Rakel Sara Elvarsdóttir frá KA/Þór til Volda í Noregi og markvörðurinn Sunna Guðrún Pétursdóttir til Amicita Zürich í Sviss.

Ásdís segist komin til Svíþjóðar til að ná að þróast frekar sem handboltakona og hún vonast til að kunnátta sín í dönsku og norsku komi til með að hjálpa sér að læra sænskuna fljótt, að því er fram kemur á heimasíðu Skara. 

„Mér fannst ég ekki geta komist lengra á Íslandi og ákvað að prófa eitthvað nýtt sem gæti komið mér lengra í mínum leik. Ég lít líka á þetta sem tækifæri til að þróast sem manneskja,“ sagði Ásdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×