Lifði af fall af nítjándu hæð

Lögreglumenn á gangi yfir Charles-brúna í Prag.
Lögreglumenn á gangi yfir Charles-brúna í Prag. AFP

Fimmtán ára tékkneskur piltur lifði í dag af fall af nítjándu hæð í fjölbýlishúsi í höfuðborginni Prag.

Að sögn tékkneskra fjölmiðla varð piltinum það til happs að að hann lenti ofan á þaki sem var yfir inngangi hússins.

„Við vorum kölluð á staðinn vegna falls manneskju, líklega af nítjándu hæð,“ sagði talsmaður lögreglunnar, Eva Kropacova.

Pilturinn var fluttur á sjúkrahús með alvarleg höfuðmeiðsli og meiðsli á mjaðmargrind og er honum haldið sofandi.

Að sögn Kropacova rannsakar lögreglan hvað varð til þess að pilturinn féll til jarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert