Þarf að skilgreina Ríkisútvarpið betur

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, segir að hann skilji vel að það séu ekki sér allir sammála um að ríkið eigi ekki að reka fjölmiðil, en það sé þá líka nauðsynlegt að menn skilgreini vel hlutverk ríkisfjölmiðilsins og ekki síður að rekstrarumhverfi hans sé þannig, að hann sé ekki beinlínis að drepa niður frjálsa fjölmiðlun í landinu, eins og nú sé raunin.

Þetta er meðal þess, sem fram kemur í viðtali við Óla Björn í Dagmálum í dag, en þar ræðir hann meðal annars um fjölmiðlaumhverfið, skattamál, ríkisstjórnarsamstarfið og horfur í stjórnmálum. Ekki síður rekur hann þó lífsviðhorf sín, sem mótað hafa hans pólitísku skoðanir, en þau kveðst hann hafa meðtekið barn að aldri í bakaríinu heima á Sauðárkróki.

Óli Björn segist í hjarta sínu vera á móti því að ríkið reki fjölmiðil. „Ég bara skil ekki hvernig menn geta komist að þeirri niðurstöðu á 21. öld að ríkið sé að reka fjölmiðlafyrirtæki,“ segir hann.

Hann kveðst hins vegar átta sig á því að ekki séu allir honum sammála. „Ég skil af hverju það er til fólk, innan Sjálfstæðisflokksins og í öðrum flokkum, sem er annt um Ríkisútvarpið, telur nauðsynlegt að það sé til öflugt ríkisútvarp til að sinna menningu og listum, standa vörð um íslenska tungu, arfleifðina okkar o.s.frv. Og ég skil þau rök að það eigi að tryggja það með sameiginlegum framlögum okkar allra,“ fellst hann á.

„En við skulum þá standa að rekstrinum með þeim hætti að hann særi eins lítið og hægt er starfsemi sjálfstæðra fjölmiðla, en það gerir Ríkisútvarpið á samkeppnismarkaði í auglýsingasölu með mjög harkalegum, sumir segja svíðvirðilegum, hætti.“

Hann dregur fram hvernig Ríkisútvarpið keppi ekki aðeins á auglýsingamarkaði, heldur sé einnig að sækja beint inn á sömu svið og frjálsu miðlarnir, hermi eftir þáttagerð þeirra eða bjóði í vinsæla umsjónarmenn þaðan.

Hann hefur miklar efasemdir um ríkisstyrki við sjálfstæða fjölmiðla, enda hafi það þegar komið í ljós við umfjöllun þingsins, að þar hafi sumir þingmenn látið í ljós  þá skoðun að það ætti að styrkja fjölmiðla sér þóknanlega en aðra ekki.

Dagmál eru streymisþættir Morgunblaðsins á netinu, opnir öllum áskrifendum blaðsins. Viðtalið við Óla Björn má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert