Skemmtilegt fyrir fólk að sjá vélina

Ný fraktflugvél Air Atlanta flaug í lágflugi yfir höfuðstöðvum flugfélagsins í Kópavogi og yfir Reykjavíkurflugvelli í hádeginu í dag, þannig að margir tóku eftir. 

Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta, segir að þarna hafi gefist skemmtilegt tækifæri fyrir fólk að sjá vélina. „Það var ekki hægt að sleppa þessu þegar tækifærið bauðst,“ segir hann og bætir við að mjög ánægjulegt hafi verið að sjá vélina á flugi en fraktvélar flugfélagsins fljúga mjög sjaldan til Íslands.

Flugvélin, sem er af tegundinni Boeing-747-400, er framleidd sem fraktvél en hefur ákveðna burðargetu og flugþol sem ekki allar fraktvélar hafa, að sögn Baldvins Más.

Hér má sjá leiðina sem vélin flaug yfir landinu af …
Hér má sjá leiðina sem vélin flaug yfir landinu af ratsjá.

Góð viðbót við flotann

Vélin bættist við flotann í síðasta mánuði og mun sinna áætlunarflugi á milli Evrópu og Bandaríkjanna og á milli Evrópu og Afríku. Í þessu tiltekna flugi hingað til lands var vélin að koma með 20 tonna frakt. Hún heldur svo áfram til meginlands Evrópu og mun fljúga þaðan á næsta áfangastað. „Þetta er mjög góð viðbót við flotann,“ bætir Baldvin Már við. Fraktvélar Air Atlanta eru þar með orðnar níu talsins.

Spurður út í rekstur flugfélagins á tímum Covid-19 segir hann að undanfarin ár hafi farþegaflug verið uppistaðan í rekstrinum, eða um 60 til 70%. Aftur á móti er ekkert um að vera á þeim markaði í dag og eru allar sjö farþegavélar flugvélarins á jörðu niðri.

„Það af leiðandi eigum við allt undir fraktinni og það er mikið að gera í henni. Við erum búnir að bæta við tveimur vélum á mjög stuttum tíma,“ segir hann og bætir við. „Það horfir strax til betri vegar en þetta er ekki komið á þann stað að þetta nái að vega upp hrunið í farþegafluginu,“ greinir hann frá. 

Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta.
Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert