Fá símagögn við rannsókn á hópslagsmálum

Landsréttur staðfesti úrskurði héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti úrskurði héraðsdóms. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær að rannsaka iPhone-síma og fá upplýsingar frá átta fjarskiptafyrirtækjum í tengslum við rannsókn sína á hópárás sem varð aðfaranótt 10. september. Þetta kemur fram í tveimur úrskurðum Landsréttar í dag, þar sem fyrri úrskurðir héraðsdóms eru staðfestir.

Ráðist var á karlmann með ofbeldi þetta kvöld, meðal annars með kúbeini og/eða öðrum verkfærum. Talið er að hópur fólks hafi ráðist á manninn, en hann hlaut opið sár á höfði og mar um líkamann. Er málið rannsakað sem stórfelld líkamsárás.

Stuttu eftir árásina var kona handtekin sem talin er hafa verið á staðnum og tekið þátt í árásina. Er hún talin svara til konu sem var dökkklædd á vettvangi og með tóbaksklút eða grímu fyrir andlitinu. Fór lögregla fram á að fá að skoða gögn á síma konunnar sem og að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um merki frá símanum, gögn um símtöl í og úr símanum sem og skilaboð og netumferð.

Telur lögreglan þessi gögn geta hjálpað til við rannsókn málsins og féllust bæði héraðsdómur og Landsréttur á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka