Japönsk systkini skráðu sig í sögubækurnar

Uta Abe fagnar gullverðlaunum í dag.
Uta Abe fagnar gullverðlaunum í dag. AFP

Japönsku systkinin Uta og Hifumi Abe skráðu sig í sögubækurnar í dag er þau urðu fyrstu systkinin til að verða ólympíumeistarar sama dag í einstaklingsíþrótt er þau unnu til gullverðlauna í júdó á leikunum í Tókýó.

Hin 21 árs gamla Uta Abe vann Frakkann Amandine Buchard í úrslitum í -52 kg flokki kvenna. Abe vann fullnaðarsigur eða á ippon. Hún var að keppa á sínum fyrstu leikum en Abe varð heimsmeistari árin 2018 og 2019.

Nokkrum mínútum síðar keppti eldri bróðir hennar, hinn 23 ára gamli Hifumi Abe, við Vazha Margvelashvili frá Georgíu í úrslitum í -66 kg flokki karla. Hann sigraði að lokum á stigum og skráði sig og systur sína í leiðinni í sögubækurnar. Verðlaunin voru hans fyrstu á Ólympíuleikum, rétt eins og hjá litlu systur.

Hifumi Abe fagnar sínum sigri.
Hifumi Abe fagnar sínum sigri. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert