Fjöldi í sóttkví á Akranesi nær þrefaldast

Nú eru 16 í einangrun smitaðir af Covid-19 og 38 í sóttkví á Akranesi. Í gær voru 15 í einangrun og 13 í sóttkví og hefur fjöldi fólks í sóttkví því nær þrefaldast á milli daga þó einungis eitt smit hafi bæst við.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupsstaðar, segir ómögulegt að segja hvort öll tilfelli þeirra sem þurftu að fara í sóttkví séu vegna smits sem kom upp í líkamsræktarstöð. Eins og áður hefur verið greint frá mætti smitaður einstaklingur í tíma í líkamsræktarstöð á Akranesi í gærkvöldi og hefur stöðinni verið lokað fram á mánudag vegna þess. 

„Smitum er að fjölga og það var að fjölga mjög mikið í sóttkví. Nú eru 16 í einangrun og 38 í sóttkví. Í gær voru 15 í einangrun og 13 í sóttkví. Við erum því að fá eitt viðbótarsmit en 23 einstaklingar bættust við í sóttkví á milli daga,“ segir Sævar í samtali við mbl.is. 

Spurður hvort útlit sé fyrir að aðgerðir verði eitthvað hertar á Akranesi segir Sævar:

„Enn sem komið er erum við á sama stað. Við höfum verið að grípa til heldur mikið hertra aðgerða hér dálítið víða. Við verðum bara að hafa trú á því að þær aðgerðir sem við höfum fengið frá sóttvarnayfirvöldum muni virka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert