„Höfum samþykkt afsökunarbeiðni þeirra“

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City, segir leikmennina þrjá sem brutu sóttvarnareglur í þarsíðustu viku hafa beðist afsökunar á framferði sínu og að leikmenn og starfslið liðsins hafi samþykkt afsökunarbeiðnina.

Um síðustu helgi voru James Maddison, Ayoze Pérez og Hamza Choudhury allir skildir eftir utan hóps í 2:3-tapinu gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni, þar sem þeir höfðu farið í gleðskap í vikunni á undan. Í teitinu voru um 20 manns samankomnir, sem er brot á sóttvarnareglum í Bretlandi.

„Við funduðum í byrjun vikunnar og höfum samþykkt afsökunarbeiðni þeirra. Þeir voru einlægir. Þeir áttuðu sig ekki bara á því að þeir hefðu gert mistök, þeir skildu líka að liðið er byggt á stolti og væntingum sem snúa að hegðun og þeir uppfylltu ekki þær væntingar.

Þannig að við samþykktum afsökunarbeiðni þeirra og það er búin að vera mjög góð orka í hópnum á ný. Ég held að þetta muni sameina okkur og styrkja okkur að nýju,“ sagði Rodgers á blaðamannafundi í gær.

Þríeykið gæti því snúið aftur í leikmannahóp Leicester fyrir leikinn mikilvæga gegn Southampton í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn.

Leicester freistar þess þar að komast í úrslitaleik bikarkeppninnar í fyrsta sinn í meira en 50 ár, eða síðan árið 1969, þegar liðið laut í lægra haldi gegn Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert