Útrýmingarfangaverði vísað úr Bandaríkjunum

Friedrich Karl Berger.
Friedrich Karl Berger. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa vísað 95 ára gömlum fyrrverandi fangaverði í útrýmingarbúðum nasista úr landi.

Samkvæmt tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna er Friedrich Karl Berger, sem hafði verið búsettur í Tennessee-ríki um nokkurt skeið, líklega síðastur í röð fjölda fyrrverandi samstarfsmanna hans sem vísað er úr  landi í Bandaríkjunum, ekki síst vegna þess hve hratt eftirlifendum stríðsins fækkar vegna aldurs.

Berger hélt þýskum ríkisborgararétti sínum þrátt fyrir flutninginn til Bandaríkjanna, en honum var vísað úr landi vegna þátttöku sinnar í ofsóknum nasista á hendur gyðingum þegar hann starfaði sem fangavörður í Neuengamme-útrýmingarbúðunum árið 1945.

Brottrekstur Bergers er sagður sýna fram á að Bandaríkin séu ekki örugg höfn fyrir þá sem hafi tekið þátt í glæpum nasista gegn mannkyninu.

Berger kveðst ekki hafa orðið vitni að morðum eða illri meðferð á föngum í búðunum, en yfirvöld í þýskalandi hafa fellt niður dómsmál á hendur honum vegna skorts á sönnunargögnum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert