María Björk Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips, en undanfarin ár hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags. María réði sig snemma á starfsferlinum til Gamma þar sem hún öðlaðist víðtæka reynslu af fasteignafjárfestingum og tengdum verkefnum.

„Þegar það var svo farið í að byggja upp félag og rekstur í kringum hluta af fasteignafjárfestingunum var mér falið að leiða uppbyggingu þess sem í dag er Alma íbúðafélag. Þeirri vegferð lauk svo núna fyrr á þessu ári þegar félagið var selt til Langasjávar ehf.," segir María.

Hún kveðst afar spennt fyrir því að ganga til liðs við Eimskip í haust. „Eimskip er eitt af rótgrónustu fyrirtækjum landsins og skipar sérstakan sess í hugum flestra landsmanna. Við höfum séð kjölfestufjárfesta koma með nýjar áherslur inn í rekstur félagsins á síðustu árum, sem fela bæði í sér ýmsar breytingar í takt við tímann, en jafnframt virðingu fyrir upprunanum með auknum fókus á kjarnastarfsemi og lykilmarkaði félagsins. Þetta er virkilega spennandi vegferð og ég hlakka til að fá að taka þátt í henni."

María er sem stendur í fæðingarorlofi, en hún á tvö ung börn með unnusta sínum, Ellerti Arnarsyni. Undanfarin ár hefur hún því varið frítíma sínum mikið með fjölskyldunni, en hún gefur sér jafnframt tíma til að sinna fjölbreyttum áhugamálum sínum.

Hún segist vera mikið nörd og les mikið bækur, blöð og greinar og hlustar á hlaðvörp um tækni, viðskipti og alþjóðamál og hefur í því sambandi mikinn áhuga á Kína.

„Kína hefur þróast hratt og saga landsins er ótrúlega merkileg. Ég er alveg heilluð af tungumálinu, það er algjör undraheimur. Ég hef verið að læra málið í nokkur ár og er með kennara sem ég reyni að hitta vikulega. Upphaflega snerist námið um að læra talmál og framburð, en nú er ég farin að einblína á lesturinn. Ég er búin að læra 300 tákn og er markmiðið að læra 600 í ár. Ég sé fyrir mér að það geti verið strategískt að læra kínversku núna þegar Kína mun taka fram úr Bandaríkjunum á næstu árum sem heimsveldi," segir hún kímin.

Eimskip er enda með stóra skrifstofu í Kína en María telur þó að hún eigi enn talsvert í land til þess að tungumálið nýtist henni á vettvangi viðskiptanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .