Snap, félag utan um samfélagsmiðilinn Snapchat, tapaði 1,43 milljörðum dala á síðasta ári, eða sem nemur 200 milljörðum króna.

Þar af tapaði félagið 288 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi sem var meira en greinendur höfðu gert ráð fyrir, að því er kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Til samanburðar hagnaðist félagið um 23 milljónir dala á sama fjórðungi árið 2021. Tekjur Snap á ársfjórðungnum námu 1,3 milljörðum dala, en 4,6 milljarða dala yfir allt árið.

Snap, eins og önnur tæknifyrirtæki, hefur farið í umfangsmiklar hópuppsagnir á árinu til að bregðast við mikilli samkeppni á samfélagsmiðlamarkaði.

Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um tæp 13% frá opnun markaða. Hlutabréfaverð í Snapchat hefur lækkað um 88% frá því að það náði toppi sínum í september 2021.