Óvænt úrslit í riðli Íslands

Bozo Andjelic sækir að Króötum í Búdapest í dag.
Bozo Andjelic sækir að Króötum í Búdapest í dag. AFP

Nebojsa Simic átti stórleik í marki Svartfjallalands þegar liðið vann sex marka sigur gegn Króatíu í milliriðli I á Evrópumótinu í handknattleik í Búdapest í dag.

Simic varði fjórtán skot í markinu og var með 40% markvörslu en leiknum lauk með 32:26-sigri Svartfjallalands.

Liðin skiptust á að skora í upphafi fyrri hálfleiks en Svartfjalland var mun sterkari aðilinn undir lok fyrri hálfleik og leiddi með sex mörkum í hálfleik, 15:9.

Króötum tókst að minnka forskot Svartfjallalands í fjögur mörk, 18:22 um miðjan síðari hálfleikinn en lengra komust þeir ekki og Svartfjallaland fagnaði sigri.

Branko Vujovic og Milos Vujovic skoruðu sjö mörk hvor fyrir Svartfjallaland en Ivan Cupic var markahæstur í liði Króatíu með sjö mörk.

Svartfjallaland fer með sigrinum upp í fjórða sæti milliriðils I í 2 stig líkt og Ísland en Króatía er án stiga í sjötta sætinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert