Hvuttar þefa upp Covid

Hundar eru magnaðir.
Hundar eru magnaðir. AFP

Hundar þykja með eindæmum þefvísir og nú hafa vísindamenn í Bandaríkjunum gert tilraun með fjórum hundum sem eru sagðir geta þefað upp kórónuveiruna, eða öllu heldur lífsýni sem tengjast Covid-19, með 97,5% nákvæmni. 

Lyktarskyn hunda er um það bil 100.000 sinnum næmara heldur en manneskja og þekkt er hvernig hundar hafa verið notaðir til að þefa uppi allt mögulegt. Það var fljótlega eftir að heimsfaraldurinn hófst að vísindamenn fóru að gera rannsóknir með þefskyn hunda í baráttunni við Covid-19. Undanfarna mánuði hafa svo farið að birtast ritrýndar rannsóknir sem hafa stutt þær kenningar að hundar geti fundið lyktina af kórónuveirunni. 

Í umfjöllun Guardian segir frá því að vísindamenn við Alþjóðaháskólann í Flórída í Bandaríkjunum hafi í lok síðasta árs birt niðurstöður þar sem fjórir hvolpar voru látnir þefa af Covid-lífsýnum. Og niðurstaðan leiddi í ljós 97,5% nákvæmni sem fyrr segir. 

Dr. Ken Furton, hjá Alþjóðaháskólanum í Flórída, segir að hlutfallstalan sé með þeim hærri sem hann hafi séð undanfarinn aldarfjórðung við þjálfun þefvísra hvutta, en hann þykir vera einn sá fremsti á þessu sviði. „Þetta er í raun alveg stórmerkilegt,“ segir hann. 

Önnur rannsókn var framkvæmd í London leiddi til þeirrar niðurstöðu að hundar geti borið kennsl á Covid í 82-94% tilfella og þýsk rannsókn sýndi fram á 95% hlutfall. 

Furton segir að hundar hafi þann hæfileika að gera greinarmun á öllum þekktum afbrigðum Covid-19. Með sama hætti og þeir geta t.d. þekkt í sundur ólík sprengiefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert