Ákveðið sjokk að skora og eiga að fara að verja eitthvað

Alexander Aron Davorsson þjálfari Aftureldingar.
Alexander Aron Davorsson þjálfari Aftureldingar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Alexander Aron Davorsson, annar þjálfara Aftureldingar var sáttur með sitt lið eftir 1:0-útisigur gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Mín fyrstu viðbrögð eru þau að við vildum færa flugið okkar en þau neituðu okkur tveimur dögum síðar. Mótiveringin í liðinu mínu fyrir leikinn í dag var mögnuð. Það er bara gamla góða rútan, það verður bara mikið fjör á leiðinni heim.“

Afturelding komst yfir á fyrstu mínútu leiksins í kvöld. Reyndist það eina mark leiksins.

„Þeir sem að hafa verið lengi í fótboltanum vita að það er ekkert alltaf auðvelt að skora snemma í leikjum, sérstaklega á erfiðum útivelli. Þór/KA er ekki lélegt lið, það er hörkulið og ef maður skorar snemma gegn þeim fellur maður til baka, það gerist bara ósjálfrátt. Við sýndum mikinn karakter með því að koma okkur inn í hálfleik og endurskipuleggja okkur en við gerðum það bara frábærlega.

Þetta var bara ákveðið sjokk fyrir okkur að skora og eiga að fara að halda einhverju. Í seinni hálfleik var þetta allt annað, við vorum meira með boltann, létum hann ganga og vörðumst vel. Það sýnir hvað við erum góðar varnarlega að geta haldið svona liði í skefjum heilan leik, vissulega voru færi hér og þar hjá þeim en Eva var frábær í markinu, mikið kredit til hennar.“

Með sigrinum opnaði Afturelding fallbaráttuna upp á gátt. Liðið er nú með 9 stig, stigi minna en Þór/KA og Keflavík.

„Maður er í fótbolta til að keppa um eitthvað. Ég sagði við einhvern um daginn að það væri betra að vera í botnbaráttu en engri baráttu. Við munum klárlega gefa allt sem við eigum í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert