Málmdrangurinn dularfulli tekinn á brott

Málmdrangurinn uppgötvaðist í nóvember.
Málmdrangurinn uppgötvaðist í nóvember. AFP

Málmdrangurinn í Utah, sem margir hafa velt vöngum yfir eftir að hann uppgötvaðist í miðri eyðimörkinni í nóvember, er horfinn.

Hvarfið varð ljóst um helgina en í gær upplýsti ljósmyndari, Ross Bernards að nafni, að hann hefði séð fjóra menn koma á vettvang og taka dranginn aðfaranótt laugardags.

„Þetta er ástæðan fyrir því að þú skilur ekki eftir rusl í eyðimörkinni,“ segir Bernards að einn mannanna hafi sagt þegar þeir tóku dranginn.

Í samtali við New York Times segir hann það benda til að mönnunum hafi fundist drangurinn stinga í augun þar sem hann var niður kominn.

Þeir ferjuðu hann á brott í hjólbörum að sögn Bernards.

Fólk tekið að flykkjast á staðinn

Síðan þá hafa fjórmenningarnir gefið sig fram.

Í yfirlýsingu til New York Times segir einn þeirra, Sylvan Christensen, að þeir hafi ákveðið að fjarlægja verkið til að vernda svæðið – ekki aðeins vegna sjónmengunar af völdum þess heldur einnig vegna umgangs þess fólks sem tekið var að flykkjast á staðinn til að berja verkið augum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert