Lögreglan framkvæmdi húsleitir hjá Alcoa á Spáni

Húsleitir voru framkvæmdar á 11 stöðum í þágu rannsóknarinnar.
Húsleitir voru framkvæmdar á 11 stöðum í þágu rannsóknarinnar. Mynd/mbl.is

Spænska lögreglan framkvæmdi í dag nokkrar húsleitir í húsakynnum málmrisans Alcoa á Spáni vegna gruns um fjársvik í tengslum við lokanir á málmbræðsluverum í norðvesturhluta Spánar.

Í yfirlýsingu lögreglunnar sagði að rannsakendur frá efnahags- og fjármunabrotadeild væru að leita gagna í höfuðstöðvum Alcoa í Madríd sem og skrifstofum fyrirtækisins í bæjunum Aviles og La Coruna.

Rannsókn lögreglu hófst að beiðni dómstóls á Spáni vegna gruns um brotastarfsemi í slitameðferð eftir að málmbræðsluverum fyrirtækisins var lokað. Um 100 sérfræðingar á vegum lögreglunnar eru sagðir hafa tekið þátt í húsleitunum ásamt fulltrúum frá vinnueftirlitinu.

Alls var leitað á ellefu stöðum víðs vegar um Spán, þar á meðal í verksmiðjum, á skrifstofum lögmanna og heimilum fólks. Alcoa hefur ekki tjáð sig um húsleitirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert