Dómgæslan er að fara úr böndunum

Donovan Mitchell, leikmaður Utah Jazz.
Donovan Mitchell, leikmaður Utah Jazz. AFP

Skotbakvörðurinn Donovan Mitchell, sem leikur fyrir topplið Utah Jazz í NBA-deildinni í körfuknattleik, var vægast sagt ósáttur við dómarana í tapleiknum gegn Philadelphia 76ers í nótt.

Mitchell var útilokaður frá leiknum þegar rúmar 30 sekúndur voru eftir af framlengingu, sem endaði með 123:131 tapi Utah. Hann hafði þá fengið tvær tæknivillur dæmdar á sig með stuttu millibili.

Sú fyrri var hins vegar dæmd á hann eftir að Joel Embiid hjá Philadelphia hafði sótt brot á Rudy Gobert, leikmann Utah. Embiid benti dómurunum á að Mitchell ætti að fá tæknivilluna með því að gera T-merki með höndunum og benda á hann og enduðu dómararnir á að skrá hana á Mitchell.

„Í fyrsta lagi vil ég hrósa Philadelphia. Þeir spiluðu vel. Joel gerði það sem hann gerir og þegar allt kemur til alls eru þeir með gott lið. Við stóðum í þeim en þetta er erfitt. Það er erfitt að fara á völlinn og líta til þess hvernig við mætum til leiks og berjumst og leikurinn er svo hrifsaður af okkur,“ sagði Mitchell.

Honum þykir dómgæsla gegn Utah vera að fara úr böndunum. „Ég er ekki týpan sem kennir dómurum um, ég get sagt að ég hefði sjálfur getað gert meira, en þetta er að fara úr böndunum. Við erum indælir, við kvörtum ekki eða verðum pirraðir á meðan leik stendur en samt eru dómararnir endalaust að skemma fyrir okkur.

Ég er orðinn þreyttur á þessu. Þetta pirrar mig rosalega. Þið blaðamenn vitið alveg hvað þetta er. Við vitum öll hvað þetta er en þetta er einfaldlega að fara úr böndunum,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert