Þorrablóti bæjarins frestað vegna veirunnar

Þorrablótinu á Djúpavogi er frestað um tvær vikur svo allir …
Þorrablótinu á Djúpavogi er frestað um tvær vikur svo allir geti nú örugglega verið með. Ljósmynd/Kristján Ingimarsson

Íbúar á Djúpavogi þurfa að þreyja þorrann aðeins lengur því þorrablóti bæjarins, sem halda átti annað kvöld, hefur verið frestað um tvær vikur vegna veikinda í bæjarfélaginu.

Eins og greint hefur verið frá voru mikil veikindi hjá skólabörnum í bænum í vikunni og síðan fóru starfsmenn skólans að veikjast líka, hver af öðrum, og einhverjir greindust með Covid-19.

„Það voru nokkrir meðlimir í þorranefndinni veikir í vikunni,“ segir Ingi Ragnarsson sem er í heimastjórn Djúpavogs.

„Það var nú aðallega þess vegna sem við ákváðum að fresta þorrablótinu, því við erum ekki mörg í nefndinni,“ bætir hann við og segir að ekki sé gaman þegar allir geti ekki verið með.

Þorrinn verður blótaður eftir tvær vikur á Djúpavogi og þá …
Þorrinn verður blótaður eftir tvær vikur á Djúpavogi og þá verður án efa mikið fjör. mbl.is/Þorsteinn

Býst við enn meira fjöri

„Það hefur einhver flensa verið að ganga hér. Sumir fá jákvætt úr prófi og aðrir ekki. Þetta er allt bara einhver flensa og enginn neitt alvarlega veikur,“ segir hann og bætir við að krakkarnir séu alir að koma til og kveðst búast við að skólahald verði með eðlilegri hætti í næstu viku.

Ingi segir að íþróttahúsi bæjarins hafi verið lokað hluta úr degi því það vantaði starfsmann, sem hafði veikst. „Það getur alveg gerst, hvort sem það er flensa, Covid eða eitthvað annað á fámennum vinnustöðum.“

Hann segir að enn þá meira fjör verði á þorrablótinu fyrst bíða þurfi aðeins eftir því. „Það er engin hætta á öðru,“ segir hann hress. Venjulega mæta 100-120 manns á þorrablót bæjarins sem þykir mjög góð mæting miðað við 500 manna bæjarfélag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert