Irma næstbest frá upphafi

Irma Gunnarsdóttir á Meistaramótinu utanhúss 2021. Hún náði góðum árangri …
Irma Gunnarsdóttir á Meistaramótinu utanhúss 2021. Hún náði góðum árangri innanhúss í gær. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Irma Gunnarsdóttir úr FH er orðin annar besti langstökkvari sögunnar innanhúss hér á landi eftir að hún sigraði í greininni á Stórmóti ÍR í Laugardalshöllinni í gær.

Irma stökk 6,36 metra og bætti sig um 22 sentimetra. Hún fór upp fyrir Sunnu Gestsdóttur sem stökk 6,28 metra árið 2003 og setti Íslandsmet en núverandi methafi er Hafdís Sigurðardóttir sem stökk 6,54 metra árið 2016.

Irma keppir aftur á mótinu í dag og þá í þrístökki en þar setti hún Íslandsmet innanhúss rétt fyrir jólin. 

Daníel Ingi Egilsson úr FH sigraði í langstökki karla, stökk 7,35 metra sem er hans besti árangur. Daníel er þar með kominn í 11. sætið á afrekalistanum í greininni frá upphafi en Íslandsmetið innanhúss á Jón Arnar Magnússon, 8 metrar sléttir.

Eins og sagt var frá í gær jafnaði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR Íslandsmet sitt í 60 metra hlaupi og Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH sigraði í 60 m hlaupi karla.

Guðni Valur Guðnason kastar kúlunni á Stórmóti ÍR í gær.
Guðni Valur Guðnason kastar kúlunni á Stórmóti ÍR í gær. mbl.is/Óttar Geirsson


Guðni Valur Guðnason úr ÍR sigraði í kúluvarpi karla, kastaði 17,63 metra.

Ingibjörg Sigurðardóttir úr ÍR sigraði í 400 m hlaupi kvenna á 59,22 sekúndum.

Jónas Isaksen, 17 ára gamall strákur úr Bragðinu í Færeyjum sigraði í 400 m hlaupi karla á 49,49 sekúndum.

Íris Anna Skúladóttir úr FH sigraði í 1.500 m hlaupi kvenna á 4:47,15 mínútum.

Sigurður Karlsson úr ÍR sigraði í 1.500 m hlaupi karla á 4:31,86 mínútum.

Irma Gunnarsdóttir úr FH sigraði í langstökki kvenna, stökk 6,36 metra sem er hennar besti árangur.

María Helga Högnadóttir úr Ármanni sigraði í kúluvarpi kvenna, kastaði 11,34 metra sem er hennar besti árangur.

Stórmót ÍR hélt áfram klukkan 9 í morgun með keppni í yngri flokkum og stendur yfir til kl. 16 í dag en keppni í fullorðinsflokkum hefst á ný kl. 14.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert