Innlent

Reglur um heimkomusmitgát taka gildi á mánudag

Kjartan Kjartansson skrifar
Heimkomusmitgátin gildir fyrir Íslendinga eða þá sem hafa búsetu á Íslandi og kjósa að fara í sýnatöku við komu til landsins.
Heimkomusmitgátin gildir fyrir Íslendinga eða þá sem hafa búsetu á Íslandi og kjósa að fara í sýnatöku við komu til landsins. Vísir/Vilhelm

Íslenskir ríkisborgarar og aðrir sem búa á landinu þurfa að virða svonefnda heimkomusmitgát í fimm daga velji þeir að fara í sýnatöku við komuna til landsins frá og með mánudeginum 13. júlí. Reglurnar eru settar til að minnka líkur á að röng niðurstaða úr prófi á landamærunum leiði til stærri hópsmita á Íslandi.

Einstaklingum sem ber að viðhafa heimkomusmitgát býðst að fara í aðra sýnatöku fjórum til fimm dögum eftir komu til landsins þeim að kostnaðarlausu. Fái þeir neikvæða niðurstöðu úr síðari sýnatöku ber þeim ekki lengur að viðhafa heimkomusmitgát en jákvæð niðurstaða leiðir alltaf til einangrunar, að því er segir í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Í heimkomusmitgátinni felst að viðkomandi skuli:

• ekki fara á mannamót eða veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir,

• ekki vera í samneyti við fólk sem er í aukinni áhættu fyrir alvarleg veikindi/viðkvæma hópa,

• gæta að tveggja metra reglunni í samskiptum við aðra,

• ekki heilsa með handabandi og forðast faðmlög,

• huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Þeim er aftur á móti heimilt að:

• nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað,

• fara í bíltúra,

• fara í búðarferðir,

• hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum.

Býðst önnur ókeypis sýnataka

Einstaklingum sem ber að viðhafa heimkomusmitgát býðst að fara í aðra sýnatöku fjórum til fimm dögum eftir komu til landsins þeim að kostnaðarlausu. Fái þeir neikvæða niðurstöðu úr síðari sýnatöku ber þeim ekki lengur að viðhafa heimkomusmitgát en jákvæð niðurstaða leiðir alltaf til einangrunar.

Þótt breytingarnar á reglugerð nái eingöngu til íslenskra ríkisborgara og þeirra sem búa hér á landi eru fjölskyldur þeirra og aðrir sem hafa víðfeðmt tengslanet á Íslandi hvattir til að fylgja sömu reglum.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að stefnt sé að óbreyttu fyrirkomulagi á skimun á landamærum út júlí. Lagt er til að opnunartími vínveitingastaða verði óbreyttur út júlí og að fjöldatakmarkanir verði óbreyttar út ágúst, en sú ákvörðun verði þó í sífelldri endurskoðun miðað við ástand faraldursins hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×